Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvers vegna ættir þú að kjósa mig?
Föstudagur 18. júní 2021 kl. 09:35

Hvers vegna ættir þú að kjósa mig?

Þessi spurning er bæði réttmæt og eðlileg og kemur mjög oft upp nú þegar ég hef samband við stóran hóp fólks sem er skráð til þess að taka þátt í prófkjöri Framsóknar í Suðurkjördæmi. Fyrsta hugsunin mín gagnvart þessari spurningu er einföld. Ég tel mig hafa þekkingu, menntun og áhuga á því að vinna fyrir fólkið í mínu samfélagi. Bla bla bla ... þetta er bara frasi. Innantóm þvæla. Raunverulega ástæðan er sú að ég er orðinn þreyttur á getuleysinu. Getuleysi sem birtist í endalausu stríði við kerfið. Upplifun okkar hér um slóðir er að viðhorfið til svæðisins er afbakað og litar skoðanir þeirra sem stjórna. Þeir sem stjórna eru nefnilega nánast aldrei héðan. Vel launuðum störfum í skjóli hersins er meðal annars um að kenna. Þannig var þróunin og því er tenging Suðurnesjanna við stjórnkerfið afskaplega takmörkuð. Stjórnmálamenn koma og fara og ekkert breytist vegna þess að embættismennirnir, sem í örfáum tilfellum eru héðan, eru fluttir í burtu. Þeirra hjörtu slá ekki lengur með Suðurnesjunum. Ekki reyna að segja mér að þú hafir ekki fundið fyrir því ágæti lesandi. Sérstaklega þið sem vinnið á höfuðborgarsvæðinu. Það er talað niður til svæðisins. Útlendingavandamál, félagsleg vandamál, lágt menntunarstig og síðast en ekki síst óþolandi upplestur úr dagbókum lögreglunnar. Kanasamfélagið o.fl. o.fl.

Ég er orðinn þreyttur á þessari undirmálsumræðu. Hún er óþolandi. Allt er talað niður á meðan tækifærin drjúpa af hverju strái. Samfélagið upplifir sig utanveltu og ég skynja ámóta tón á Suðurlandinu. Dæmin eru svo mörg að ég nenni varla að telja þau upp. Hver væru viðbrögðin ef 4.000 manns á Akranesi hættu að nota heilbrigðisþjónustu þar vegna þess að hún væri ekki boðleg? Ætli þingmenn þar, embættismenn og ráðamenn létu það yfir sig ganga. Kannski ... ég ætla þó að leyfa mér að efast um það. Þannig að, ég er að bjóða mig fram. Ekki er ég að sækjast eftir launum, ég er í fínu starfi enda Keilir dásamlegur vinnustaður og starf framkvæmdastjóra bara nokkuð vel launað. Ég er að bjóða mig fram vegna þess að mér er ekki sama. Eflaust á það við um alla frambjóðendur, ég veit það ekki. En til þess að gera langa sögu stutta þá er valið ykkar. Þið sem eruð skráð í Framsókn getið sett mig í 2. sætið. Ég mun þá berjast fyrir svæðinu með þá veiku trú að vopni að við eigum betra skilið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég er stoltur yfir því að vera alinn upp á Háaleitinu í Keflavík, hafa gengið í skóla hér, eignast stóran vinahóp hér sem stendur saman. Ég er stoltur af samfélaginu okkar. Samfélagi sem lætur ekkert á sig fá, hvort sem það er lokun varnarstöðvar, bankahrun, fall flugfélaga eða heimsfaraldur. Þannig að þá hafiði það. Kjósið mig vegna þess að mér er í alvöru ekki sama!

Kveðja, Jóhann Friðrik.